Frumkvöðull ársins 2011 var að mati Viðskiptablaðsins nýsköpunarfyrirtækið Meniga. Fyrirtækið hefur hannað heimilisbókhaldslausn sem allir stóru viðskiptabankarnir hér á landi hafa tekið í notkun. Lausnin auðveldar fjölskyldum að fylgjast náið með eyðslu og tekjum heimilisins án mikillar fyrirhafnar þar sem sjálfvirkni er í fyrirrúmi. Meniga er dæmi um frumkvöðla- fyrirtæki sem óx upp úr jarðvegi fallinna banka þar sem hæfileika- fólk skapaði sér nýjan vettvang til sóknar með hugvitið eitt að vopni.

Í áramótatímariti Viðskiptablaðsins var að finna ítarlegt viðtal Bjarna Ólafssonar, blaðamanns Viðskiptablaðsins, við Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóra og einn af stofnendum Meniga. Sagði hann rætur fyrirtækisins liggja í áhuga hans á heimilisfjármálum.

„Ég hef mjög lengi haldið bókhald sjálfur og var eini maðurinn sem ég vissi um sem vissi upp á krónu hvað ég var að eyða peningunum mínum í. Gekk þetta svo langt að ég var maðurinn í fjölskylduboðinu sem ráðlagði ættingjunum hvort þeir ættu að taka 40 ára eða 25 ára húsnæðislán, svo dæmi sé tekið. Segja má að ég hafi haft ákveðna ástríðu fyrir því að hjálpa fólki með þessa hluti. Þess vegna vakti það athygli mína þegar ég sá fyrstu lausnirnar af nýjustu kynslóð heimilisfjármálalausna í Bandaríkjunum þegar ég var þar í námi fyrir 5 árum,“ segir Georg.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.