Margir íslenskir frumkvöðlar glíma við þann vanda að búa ekki yfir nægilega mikilli þekkingu til að koma vöru sinni á markað. Opinberir styrkir gera svo illt verra því þeir seinka því að frumkvöðlarnir læri markaðssetningu. Þetta er mat Rúnars Ómarssonar, eins af frumkvöðlum Nikita. Hann segir í samtali við Morgunblaðið í dag frumkvöðla þurfa að öðlast færni í því að meta markaðshæfi vörunnar sem þeir eru að þróa.

Rúnar er harðorður í garð stoðkerfis nýsköpunarfyrirtækja hér á landi. Hann segir allt of margar stofnanir hafa með málaflokkinn að gera auk þess sem stoðkerfið sé orið að bákni sem snúist að miklu leyti um að viðhalda sjálfu sér.

Ríkið sér um markaðssetninguna

Hann segir:

„Þetta hef ég fengið staðfest hjá starfsmönnum stoðkerfisins, sem hafa m.a. lýst kerfinu sem sjálfhverfu stofnananeti sem vanti alla hvata til að aðstoða fyrirtækin við að þurfa ekki á stuðningi þeirra að halda.“

Þá segir Rúnar:

„Í Bandaríkjunum er fyrsta spurningin: Hver mun kaupa vöruna? Hér á landi er fyrsta spurningin: Hver mun styrkja vöruþróunina?“ segir Rúnar. Hann veltir því sömuleiðis fyrir sér hversu mörg þekkt vörumerki eru í sjávarútvegi hér á landi. Hann telur þau ekki mörg.

„Hugsanlega hefur það áhrif að ríkið hefur í miklum mæli annast markaðssetningu hans síðustu áratugi, t.d. með skipulagningu  á þátttöku íslenskra sjávarafurðafyrirtækja á vörusýningum, þar sem áherslan er lögð á sameiginlegt upprunaland sýnenda, en ekki sérstöðu ákveðinna sjávarafurðaframleiðenda eða vörumerkja umfram aðra, enda má ríkið að takmörkuðu leyti gera upp á milli fyrirtækja sem það styrkir í ákveðnum starfsgreinum,“ segir hann.