Líf frumkvöðulsins er ekki alltaf dans á rósum. Vinnutíminn er langur, þeir vinna oft einir og á mjög þröngt afmörkuðu sviði sem fáir skilja. Stjórnmálamenn hafa lengi keppst við að ítreka mikilvægi þeirra fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag.

Þegar hins vegar er rætt við frumkvöðlana sjálfa má oft greina mikla óánægju með það starfsumhverfi sem þeim er búið hér á landi. Ekki er hægt að tala um frumkvöðla eins og vel skilgreindan hóp því þeir starfa á mjög breiðu sviði og hafa ólíkan bakgrunn.

Frumkvöðlastarfsemi hefur lengi verið öflug á Íslandi enda virðist það vera ríkt í okkur Íslendingum að vilja standa á eigin fótum og vera okkar eigin herrar.

Í skýrslu sem Rannsóknarmiðstöð HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum gaf út í mars 2007 kemur fram að frumkvöðlastarfsemi hér á landi sé með svipuðum hætti og í Bandaríkjunum og talsvert meiri en á Norðurlöndunum, ef Noregur er undanskilinn.

Háskólinn í Reykjavík hefur frá árinu 2002 tekið þátt í frumkvöðlarannsókn á vegum Global Entrepreneurship Monitor (GEM). En hvernig hlúa stjórnvöld að frumkvöðlum og hvað er hægt að gera til að bæta starfsumhverfi þeirra?

Þrátt fyrir yfirlýsingar ýmissa opinberra aðila virðist víða pottur brotinn í þeim efnum. Helstu umkvörtunarefni frumkvöðla eru skortur á fjármagni, skortur á faglegri ráðgjöf og almennar efnahagsaðstæður á Íslandi.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í úttekt í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .