Enn og aftur er John Meriwether í hringiðu ólgunnar á fjármálamörkuðum. Nú, tíu árum eftir að hann stýrði feikistórum vogunarsjóð í hrun og olli þar með glundroða á alþjóðafjármálamörkuðum, berst hann í bökkum við að halda öðrum fjárfestingasjóð á floti. Fyrir tíu árum var hann gerandi en í dag er hann fórnarlamb markaðsaðstæðna.

Meriwether er þekktastur fyrir að hafa stofnað vogunarsjóðinn Long Term Capital Management (LTCM) árið 1994. Meðal stjórnenda sjóðsins voru þeir Mytron Scholes og Robert C. Merton, en þeir eru frumkvöðlar hönnunar líkana sem verðleggja valréttarsamninga og árið 1997 fengu þeir heiðursverðlaun sænska seðlabankans sem eru veitt í minningu Alfred Nobel fyrir framúrskarandi afrek í hagfræðirannsóknum.

Með slíka þungavigtarmenn innanborðs tókst sjóðnum að glutra niður 4 milljörðum Bandaríkjadala árið 1998 og þar með aðstoða við að valda alþjóðlegri fjármálakrísu. Hrun LTCM varð til þess að gripa þurfti til björgunaraðgerða á Wall Street og leiddi atburðarrásin til þess að Bandaríkjaþing hóf að rannsaka hvernig vogunarsjóðir starfa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .