*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 5. október 2015 16:53

Frumtak 2 fjárfestir í Arctic Trucks

Fjárfestingasjóðurinn Frumtak 2 mun leggja um 500 milljónir króna í Arctic Trucks ásamt núverandi hluthöfum.

Ólafur Heiðar Helgason
Birgir Ísl. Gunnarsson

Frumtak 2 mun fjárfesta í fyrirtækinu Arctic Trucks ásamt því sem núverandi hluthafar leggja fjármagn í félagið. Þetta staðfesta þeir Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks, og Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks, í samtali við Viðskiptablaðið. Heildarfjárfestingin nemur tæpum 500 milljónum króna.

Arctic Trucks er þjónustufyrirtæki sem vinnur að lausnum fyrir fólk sem hefur áhuga á jeppum og ferðalögum, að því er segir á vefsíðu fyrirtækisins. Saga Arctic Trucks nær aftur til ársins 1990, en hugmyndin var að útbúa bíla sem væru heppilegri til vinnu og ferðalaga um hálendi Íslands. Auk þess að starfa á Íslandi hefur Arctic Trucks systurfélög í Noregi og Dubai. Vottaðir leyfishafar starfa í sex öðrum löndum.

Sækja á almennari markað

Emil segir fjárfestinguna gera Arctic Trucks kleift að vaxa frekar. Hann segir helstu vaxtartækifæri fyrirtækisins snúa að því að breikka viðskiptavinahópinn með því að fara inn á markaðinn með lítið breytta bíla.

„Við erum búin að ná alveg ótrúlegri sérstöðu, heimssérstöðu á Suðurskautslandinu. Við getum boðið þar hluti sem enginn annar getur sannarlega boðið,“ segir Emil. Hann segir jeppa sem fyrirtækið hefur breytt eyða 5-10 sinnum minna eldsneyti en snjóbíll og komast 3-6 sinnum hraðar á leiðinni frá strönd Suðurskautslandsins að suðurpólnum. Sala á slíkum búnaði verði þó ekki í miklu magni.

Um er að ræða fyrstu fjárfestingu Frumtaks 2, sem stofnaður var í febrúar.

Stikkorð: Arctic Trucks