Frumtak hefur lokið kaupum á 30% hlut í Cintamani af Kristni Má Gunnarssyni eiganda fyrirtækisins. Cintamani er íslenskt fyrirtæki sem hannar, framleiðir og selur útivistarfatnað á alþjóðamarkaði.

Í tilkynningu er haft eftir Eggerti Claessen, framkvæmdastjóra Frumtaks, að sérstök ánægja sé að geta fjárfest í íslenskri hönnun. Kristinn Már Gunnarsson, stjórnarformaður Cintamani, segir að aðkoma Frumtaks skapi svigrúm til að fullnýta þá möguleika sem blasi við á erlendum mörkuðum, enda sé þar um fjárfrek verkefni að ræða sem tengist markaðssetningu, opnun eigin verslana og auknu úrvali. Fjárfestingin geri Cintamani kleift að vaxa í stökkum fremur en skrefum.