Frumtak hefur fest kaup á hlut í Controlant ehf. Félagið býður upp á heildarlausnir í vöktun á ástandi verðmæta með áherslu á hita- og rakastig. Lausnin er hentug fyrir alla þætti virðiskeðjunnar, hvort sem er í framleiðslu, geymslu eða flutningi. Í öllum iðnaði er nú krafist betri upplýsinga um hitaferla, en slíkar upplýsingar hafa mikil áhrif á gæði og öryggi vörunnar. Fjárfest er fyrir 90 milljónir króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu um kaupin. Frumtak er samlagssjóður í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex af stærstu lífeyris­sjóðum landsins og þriggja banka.

Úr tilkynningu:

„Vél- og hugbúnaður sá sem félagið hefur hannað og þróað er afrakstur 5 ára þróunarstarfs. Aðaláherslan í dag er lögð á hitastigsvöktun í lyfja- og matvælaiðnaði auk rauntímamælinga á orkunotkun. Félagið vinnur með stærstu aðilum hér innanlands í viðkomandi iðnaði og hefur lausnum félagsins verið vel tekið af notendum. Fjárfest er fyrir 90 milljónir króna.

„Controlant er spennandi fjárfestingakosturi“ sagði dr. Eggert Claessen , framkvæmdastjóri Frumtaks.  „Félagið hefur þróað tæknilausn í ferlivöktun sem á erindi á heimsmarkað, sérstaklega þróun lausna í lyfja og matvælaiðnaði.  Það er ánægjuefni að þeir fjármunir sem Frumtak fjárfestir í félaginu gera því kleift að hefja alþjóðlegt markaðsstarf og nýta það tækniforskot sem félagið hefur“.

„Controlant er fyrirtæki sem byggir á íslensku hugviti“ sagði Gísli Herjólfsson , framkvæmda­stjóri Controlant. „Það er samhentur hópur sem hefur staðið að uppbyggingu félagsins og þróað þá tækni sem lausnir félagsins byggja á.  Þróunarstarf félagsins á undanförnum árum hefur skilað góðum árangri í formi tæknilausna sem standa í fremstu röð.  Samstarf Controlant og Frumtaks gerir fyrirtækinu kleift að hefja alþjóða markaðssetningu af krafti og nýta þannig samkeppnisforskot félagsins.“

Frumtak er samlagssjóður í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex af stærstu lífeyris­sjóðum landsins og þriggja banka. Frumtak fjárfestir í nýsköpunar- og sprota­fyrirtækjum sem þykja vænleg til vaxtar og útrásar.  Markmið Frumtaks er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Frumtak fjárfestir í fyrirtækjum sem eru komin af klakstigi og er áskilið að fyrir liggi ítarlegar viðskiptaáætlanir.“