Frumtak hefur lokið þriðju fjárfestingu sinni á þessu ári og fest kaup á hlut í Handpoint ehf. Handpoint hefur frá stofnun árið 1999, sérhæft sig í hugbúnaðarlausnum á handtölvum fyrir verslunarkeðjur. Alls er fjárfest fyrir 132 milljónir króna.

Fyrirtækið hefur frá árinu 2004 þróað fullkomið afgreiðslukerfi fyrir handtölvur (e. handheld devices) sem styður nýjan greiðslukortastaðal, svokallaðan EMV staðal, sem hefur veitt fyrirtækinu sérstöðu á alþjóðavísu og skapað verkefni og viðskiptatengsl við stærstu verslunarkeðjur Evrópu sem og leiðandi velbúnaðarframleiðendur.

„Það er okkur mikil ánægja að Frumtak skuli  ljúka við enn eina fjárfestingu“ sagði dr. Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks í tilkynningu.  „Handpoint er líka sérlega áhugavert fyrirtæki sem hefur náð góðum árangri í sölu handtölvulausna sinna, sérstaklega þeirra sem tengjast rafrænni greiðslumiðlun á handtölvum.  Þegar horft er til þeirra breytinga sem eru að verða í smásöluverslun þá er krafan um hagræðingu og afköst sífellt háværari.  Þess vegna væntum við mikils af Handpoint og lausnum þess og erum sérstaklega spennt að sjá fyrirtækið nýta sérþekkingu sína í rafrænni greiðslumiðlun á handtölvum á erlendum mörkuðum.  Þarna eru mikil tækifæri sem nú er hægt að nýta með þeim fjármunum sem Frumtak leggur til“.

„Við höfum þróað handtölvulausnir í tíu ár og höfum á þeim tíma byggt upp mikla reynslu á þeim markaði og eignast viðskiptavini um heim allan. Sérþekking okkar á þessu sviði hefur nú gert okkur kleift að nálgast stóra erlenda viðskiptavini og verkefni sem tengjast greiðslumiðlum og afgreiðslukerfum á handtölvum.“ sagði Davíð Guðjónsson, framkvæmdastjóri Handpoint. „Til að tryggja okkar forskot á markaði þurfum við að vaxa hraðar og það var mat okkar að það væri best gert með því að taka inn vaxtarfjármagn á þessu stigi í þroskaferlinu. Frumtak er góður aðili til að vinna með og býr yfir þekkingu jafnt sem fjármagni til að hjálpa okkur að halda áfram að selja íslenskt hugvit til erlendra aðila með marktækum árangri,” sagði Þórður Magnússon, stjórnarformaður Handpoint í tilkynningu.

Frumtak er samlagssjóður í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex af stærstu lífeyrissjóðum landsins og bankanna þrigga. Frumtak fjárfestir í nýsköpunar- og sprota¬fyrirtækjum sem þykja vænleg til vaxtar og útrásar.  Markmið Frumtaks er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Frumtak fjárfestir í fyrirtækjum sem eru komin af klakstigi og er áskilið að fyrir liggi ítarlegar viðskipta-áætlanir.