Frumtak hefur lokið fyrstu fjárfestingu sinni og fest kaup á hlut í Trackwell hf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Trackwell sem hefur frá stofnun árið 1996, sérhæft sig í hugbúnaðargerð með sérstakri áherslu á lausnir tengdar fjarskiptum og staðsetningatækni.

Í tilkynningunni kemur fram að Trackwell hefur þróað þjónustu sem kallast Trackwell Forðastýring.

Hugtakið forðastýring er þýðing á Mobile Resource Management (MRM) og stendur fyrir kerfi sem innifelur verkferla til þess að hafa eftirlit með og stýra notkun forða - hver er að gera hvað á hverjum tíma, hvar og hvernig.

„Kostnaðarvitund fyrirtækja, vilji til að hagræða og ná betri tökum á starfseminni er vaxandi þáttur í nútíma stjórnun,“ segir í tilkynningunni.

„Með forðastýringu frá Trackwell geta fyrirtæki fylgt verkferlum sem gera þeim kleift að ná verulegri hagræðingu í rekstri með bætri skráningu og fullkominni yfirsýn yfir forða fyrirtækisins.“

„Það er okkur mikil ánægja að Trackwell skuli vera fyrsta fjárfesting Frumtaks“ sagði dr. Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks í tilkynningunni.

„Trackwell hefur náð miklum árangri í sölu forðastýringalausna sinna. Við væntum mikils af fyrirtækinu og erum sérstaklega spenntir að sjá fyrirtækið nýta sérþekkingu sína í sölu á sjávarútvegslausnum á erlendum mörkuðum. Þarna eru mikil tækifæri sem nú er hægt að nýta.“