Frumtak hefur lokið annarri fjárfestingu sinni og fest kaup á hlut í AGR - Aðgerðargreiningu ehf.  Fjárfestingin er upp á 100 milljónir króna og er árangurstengd sem mun ráða hve stór eignarhlutur fæst fyrir upphæðina. AGR var stofnað árið 1998 í framhaldi af rannsóknarverkefnum við verkfræðideild Háskóla Íslands.

Í nánu samstarfi við Rannís og Háskólann í Reykjavík hefur fyrirtækið undanfarin ár þróað aðferðir og hugbúnað fyrir alþjóðlegan markað. Helsta afurð fyrirtækisins er AGR Inventory Optimiser sem innleitt hefur verið hjá yfir 50 fyrirtækjum í 11 löndum. Grunnþróun AGR hefur alfarið farið fram hérlendis í samstarfi við fyrirtæki í vörudreifingu, framleiðslu og verslun.

Helstu markaðssvæði AGR er í Evrópu með áherslu á Norðurlöndin, Bretland og Holland. Fyrirtækið rekur tvær skrifstofur undir merkjum AGR í Bretlandi og Danmörku en vinnur einnig náið með mörgum þekktum endursöluaðilum á meginlandinu s.s. Microsoft og K3.