Frumtak GP mun verða fjárhagslegur styrktaraðili ráðstefnunnar Startup Iceland í júní. Frumtak er rekstraraðili samfélagssjóðsins Frumtaks sem er í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og hefur sjóðurinn fjárfest í ýmsum nýsköpunarfyrirtækjum.

Í tilkynningu er haft eftir dr. Eggerti Claessen, framkvæmdastóra Frumtaks, að ráðstefnan opni möguleika fyrir íslenska frumkvöðla:

„Með tilkomu Startup Iceland ráðstefnunnar hefur skapast mikilvægur vettvangur fyrir íslenskt frumkvöðlasamfélag þar sem frumkvöðlar geta komið auga á tækifæri til þess að skara fram úr á alþjóðlegum vettvangi. Ráðstefnan veitir okkur möguleika á að mynda betri umgjörð og umhverfi fyrir íslensk sprotafyrirtæki með aðstoð erlendra áhrifavalda sem munu koma til landsins og miðla af reynslu sinni.“

Startup Iceland ráðstefnan verður haldin dagana 1. til 4. júní næstkomandi og fer fram í Háskólanum í Reykjavík og tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Ráðstefnan er spennandi vettvangur þar sem leiddir eru saman frumkvöðlar, fjárfestar og áhrifafólki í nýsköpunargeiranum.

Þá er haft eftir Bala Kamallakharan, stofnanda Startup Iceland, fjárfesti og framkvæmdastjóra Greenqloud, að samningurinn er afar dýrmætt framlag til stuðnings við íslensk frumkvöðlafyrirtæki.