Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, lagði í kvöld fram frumvarp sem gerir ráð fyrir því að höfuðstóll bílalána verði lækkaður. Árni mælti einnig fyrir frumvarpinu í kvöld og var það afgreitt til nefndar en nefndadagar verða á Alþingi það sem eftir er vikunnar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeir einstaklingar sem fyrir 7. október 2008 keyptu bifreið til einkanota og fjármögnuðu kaupin með gengistryggðu láni eða fjármögnunarsamningi geti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum farið fram á skilmálabreytingu lána og greitt af því eins og um hefðbundið verðtryggt lán í krónum hefði verið að ræða.

Í fylgigögnum með frumvarpinu kemur fram að fjöldi þeirra einstaklinga sem eru með veðtryggð lán og kaupleigusamninga vegna bifreiðakaupa hjá "stærstu fjármálafyrirtækjunum,( Avant, Íslandsbanka, Lýsingu og SP fjármögnun) er um 48 þúsund, en þar af eru tæplega 36 þúsund eða um 75% með láns- eða kaupleigusamning með höfuðstól að hluta eða öllu leyti í erlendum myntum eða endurgreiðslur samninganna taka mið af gengi erlendra gjaldmiðla, svokölluð myntkörfulán. Námu heildareftirstöðvar lána til þeirra um 105 milljörðum króna í apríl og meðaleftirstöðvar hvers láns eru um 2,2 milljónir króna."