Frumvarp sem lagt hefur verið fyrir Alþingi er ætlað að gera svokallaða Expressþjónustu fríhafnarinnar óheimila. Félag atvinnurekenda hefur staðið í bréfaskiptum við ráðuneytið varðandi málið og fagnar því að það hafi verið lagt fyrir Alþingi.

FA hefur talið þessa vefverslun Fríhafnarinnar lið í afar óeðlilegri samkeppni ríkisbúðarinnar við verslunina í landinu. Í henni felst að hægt er að panta vörur án opinberra gjalda á netinu og fá svo vin eða kunningja sem á leið um Leifsstöð til að sækja þær í komuverslun Fríhafnarinnar.

Í greinargerð frumvarpsins verður slík pöntun gerð óheimil, en í því segir meðal annars að þannig sé gert ráð fyrir að „óheimilt verði að bjóða vörur komuverslana til sölu öðrum en þeim farþegum og áhöfnum millilandafara sem heimilt er að versla í slíkum verslunum."

„Það er ánægjulegt að barátta FA fyrir breytingum á þessu fyrirkomulagi beri nú þennan árangur,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Það er vonandi að þetta sé aðeins byrjunin á að hemja útþenslustefnu ríkisfyrirtækisins Isavia, sem rekur Fríhöfnina og hefur stöðugt fært sig upp á skaftið í samkeppni við verzlunina í landinu.“