Fulltrúadeild Bandaríkjaþings kolfelldi seint í gærkvöldi ósk Barack Obama forseta um hækkun á skuldaþaki alríkissjóðsins.

Aðeins 97 voru fylgjandi að veita heimild til hækkunar á þakinu en 318 greiddu atkvæði á móti. 20 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Frumvarpið þurfti stuðning 2/3 þingmanna til að taka gildi.

Fréttaskýrendur vestanhafs túlka þetta sem sigur fyrir Repúblíkanaflokkin sem krefst þess að ríkisútgjöld verði skorin verulega niður ef flokkurinn eigi að styðja hækkun skuldaþaksins.  Skuldaþakið er nú 14,3 billjónir Bandaríkjadala.

Að sama skapi er þetta ósigur fyrir Obama forseta en innan við helmingur þingmanna demókrata studdu tillöguna en þeir eru 193 en fulltrúar repúblíkana 240.

Timothy Geithner sagði um helgina að skuldaþakið þyrfti að hækka í síðasta lagi 2. ágúst, annars blasi greiðslufall við ríkissjóði Bandaríkjanna.