Einstaklingur sem sækir um leyfi fyrir heimagistingu þarf að leggja fram fimm mismunandi vottorð, teikningu af húsnæðinu og staðfest virðisaukaskattnúmer. Umsóknin kostar 24 þúsund krónur og þarf að vera samþykkt af sex mismunandi aðilum, nánar tiltekið slökkviliði, vinnueftirliti, byggingarfulltrúa, lögreglu, heilbrigðisnefnd og sveitarstjórn.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur lengi boðað einföldun á þessu regluverki. Sú einföldun hefur ekki komist til framkvæmda þrátt fyrir að breytingar á lögum um gististaði hafi verið boðaðar strax árið 2013. Frumvarp, þar sem lögð var til veruleg breyting á regluverkinu vegna heimagistingar, var lagt fram í fyrra. Samkvæmt frumvarpinu verður gistiheimilaflokki 1, sem nær til heimagistingar, breytt þannig að einstaklingar þurfi ekki að sækja um rekstrarleyfi. Á móti kemur að hver einstaklingur má mest leigja út tvær eignir í samtals 90 daga á ári. Frumvarpið er eitt af þremur málum iðnaðar- og viðskiptaráðherra á uppfærðri málaskrá ríkisstjórnarinnar.

Ganga hart fram

Ragnhildur Sigurðardóttir, formaður Samtaka um skammtímaleigu á heimilum, segir að þó margt sé til bóta í frumvarpinu sé annað sem samtökunum hugnast ekki eins vel. „Okkur finnst það ganga svolítið hart fram og vera helst til mikið takmarkandi, að ætla bæði að takmarka fjölda eigna sem einstaklingar geta leigt út og tímafjölda,“ segir hún. Ragnhildur bendir á að fjöldi fólks starfræki heimagistingu í meira en 90 daga á ári. Þar á meðal er fólk sem er með bændagistingu og fólk sem leigir út hluta af eignum sínum. „Það getur verið fólk sem býr í stórum eignum, er kannski að leigja einhver herbergi, kjallaraíbúðir eða eitthvað sem er hluti af eignunum þeirra sem þeir myndu aldrei setja í annars konar leigu,“ segir hún. Þetta sé stór markaður sem sé nú í uppnámi. Ragnhildur segir að samtökin hafi eytt púðri í að kynna Airbnb fyrir stjórnvöldum. Til að byrja með hafi enginn vitað hvað Airbnb er, en síðan hafi velviljinn aukist. „En stjórnvöld eru enn svolítið föst í að það þurfi að takmarka þetta við bæði fjölda eigna og tíma. Okkur finnst það svolítið ósanngjarnt, því fólk er að leigja alls konar eignir,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu á blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.