Síðdegis í gær mælti Bjarni Benediktsson fyrir frumvarpi á Alþingi sem takmarka á möguleika fjárfesta á að sækja skammtímagróða af vaxtamun milli Íslands og annarra landa. Lagasetningin er liður í afnámi gjaldeyrishafta en slík viðskipti höfðu mikil áhrif á fjármálakerfið hér á landi á árunum fyrir hrun.

Seðlabankinn geti temprað innstreymi

Frumvarpið fjallar um breytingar á lögum um gjaldeyrismál, um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Tilgangur laganna er að skilgreina og staðfesta úrræði Seðlabanka Íslands til að tempra innstreymi fjármagns til landsins og hafa áhrif á samsetningu þess.

Í gær birtust fréttir af því að þetta frumvarp myndi tefjast, en með því á Seðlabankinn að hafa yfir að ráða varúðartæki vegna vaxtamunarviðskipta, en eins og kunnugt er röskuðu slík viðskipti jafnvægi íslenska fjármálamarkaðarins á árunum fyrir hrun.

Binda 75% í allt að fimm ár

Lagt er til í frumvarpinu að Seðlabankinn hafi heimild til að setja reglur sem kveði á um bindingu reiðufjár sem komi til vegna fjárfestinga þar sem horft sé til skammtímaávinnings vegna vaxtamunar milli Íslands og annarra landa og gengisbreytinga. Ná þau því yfir tiltekið innstreymi nýs gjaldeyris, einkum vegna kaupa á skuldabréfum, víxlum og nýrra bankainnistæðna.

Geti bankinn þannig sett reglur um bindisskyldu á reiðufé sem geti numið allt að 75% af viðskiptunum á reikningi hjá innlánsstofnun hér á landi til allt að fimm ára.