Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lagði fram á Alþingi í dag frumvarp að lögum um einfaldari skil ársreikninga fyrir lítil fyrirtæki. Markmið laganna er að lækka umsýslukostnað fyrirtækjanna og bæta viðskiptaumhverfið.

Þessum fyrirtækjum - svokölluðum örfyrirtækjum - verður þá heimild að skila einfaldari útgáfu af ársreikningi til ársreikningaskrár. Við skil skattframtals getur forsvarsmaður félagsins hakað við sértilgerðan reit á skattframtali og tölvukerfi sér sjálfkrafa um úrvinnslu ársreiknings á fyrirliggjandi gögnum.

Til örfélaga teljast þau fyrirtæki sem fara ekki fram yfir eftirfarandi takmörk:

  • 20 milljónir króna í niðurstöðutölu efnahagsreiknings
  • 40 milljónir króna í hreina veltu
  • Þrjú ársverk að meðaltali

Um það bil 80% fyrirtækja á Íslandi teljast til slíkra örfélaga og frumvarpið mun því að öllum líkindum hafa víðtæk áhrif og verða félögunum sem um ræðir mikil sparnaðarbót hvað varðar umsýslukostnað.