*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 25. nóvember 2004 14:09

Frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja

undanþáguákvæði feld niður

Ritstjórn

Fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um skattskyldu orkufyrirtækja, en sama frumvarp var lagt fram til kynningar s.l. vor. Þá var frumvarpið sent ýmsum hagsmunaaðilum til umsagnar í sumar og hefur að nokkru leyti verið brugðist við athugasemdum þeirra í hinu nýja frumvarpi. Frumvarpið tekur til fyrirtækja er stunda vinnslu, flutning, dreifingu, sölu og afhendingu á raforku og heitu vatni og er samið með það fyrir augum að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði í takt við almenn samkeppnissjónarmið.

Með frumvarpinu eru undanþágur orkufyrirtækja frá tekjuskatti og
eignarskatti felldar niður en gerð er tillaga um að skattskyldan taki fyrst til
rekstrarársins 2006 með álagningu árið 2007. Þannig gefst fyrirtækjunum
svigrúm til að aðlaga fjárhæðir að skattalegum reglum við uppgjör skattstofna.

Rétt er að geta þess að samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, er gert ráð fyrir afnámi eignarskattlagningar frá og með álagningu 2006 vegna eigna í árslok 2005. Verði frumvarpið að lögum kemur því ekki til eignarskattlagningar á orkufyrirtæki.

"Enda þótt fyrir því kunni að hafa verið ákveðin rök á sínum tíma að
undanþiggja orkufyrirtæki tekjuskatti og eignarskatti eru skilin milli þessara
fyrirtækja og annarra fyrirtækja, sem eru að fullu skattskyld, ekki lengur skýr. Orkufyrirtæki greiða t.d. tryggingagjald og virðisaukaskatt og ýmis önnur opinber gjöld. Auk þess þarf að hafa í huga að auk opinberra orkufyrirtækja standa einstaklingar að félögum um byggingu og rekstur orkuveitna sem eru skattskyld með venjulegum hætti," segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.