Frumvarp um ábyrgðarmenn var lagt fram á Alþingi í dag. Að því standa þingmenn úr öllum flokkum en fyrsti flutningsmaður er Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.

Auk Lúðvíks eru meðflutningsmenn formenn þingflokka Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins, formaður Framsóknarflokksins og formenn viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar, að því er segir í fréttatilkynningu.

„Við endurreisn bankakerfisins er mikilvægt að afnema þann séríslenska sið ábyrgðarmannakerfisins að þriðji aðili sé gerður ábyrgur fyrir viðskiptum annarra enda afleiðingarnar oft verið fjölskyldum og samfélaginu í heild afar íþyngjandi,“ segir í fréttatilkynningunni.

Meðal helstu nýmæla í frumvarpinu er að fasteign ábyrgðarmanns, þar sem hann heldur heimili, skal undanþegin aðför og að gjaldþrotaskipta verður ekki krafist á búi ábyrgðarmanns að greindum skilyrðum.

Eru þessi nýmæli einskorðuð við persónulegar ábyrgðir en eiga ekki við þegar ábyrgðarmaður veitir sérstaka veðheimild í fasteign sinni. Þess háttar vernd á sér fyrirmynd í rétti annarra þjóða og hefur verið rökstudd með vísan til þeirrar samfélagslegu upplausnar sem fylgir því þegar fjölskylda ábyrgðarmanns á sér ekki lengur samastað.

Þá er í frumvarpinu lögð áhersla á vernd ábyrgðarmanna sem og að tryggja fagleg vinnubrögð við gerð lánasamninga þar sem ábyrgðarmanna er krafist. Í því skyni er mikilvægt að ábyrgðarmaður sé vel upplýstur um þá áhættu sem ábyrgð hans felur í sér.

Til að tryggja upplýstar ákvarðanir er t.a.m. í 4. grein frumvarpsins að finna ákvæði er skyldar lánveitanda að ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef aðstæður gefa tilefni til þess, segir í tilkynningu.