Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við fréttastofu RÚV að frumvarp um afnám fjármagnshafta verði að líkindum lagt fyrir í ríkisstjórn í næstu viku.

„Vonandi í næstu viku, ég stefni að því," er haft eftir fjármálaráðherra þegar hann er spurður að því hvenær frumvarpið verði lagt fram. Um þinglega meðferð frumvarpsins segir:

Það verður allavega gert á þessu þingi eða hvað?

„Við þurfum að koma því inn á þetta þing. Og ég trúi því að því verði vel tekið þar eða það fái forgangsmeðferð og við getum verið sammála um að þetta er það stórt og mikilvægt mál að það skipti öllu að klára vinnu við það.“

Kjaradeilur gætu seinkað málinu

Aðspurður hvort fjármálaráðherra telji að náist að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok segist hann sjá fyrir sér að þingið verði framlengt til að svo megi verða. "Ég sé ekkert annað í kortunum," segir hann.

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur varað við því að staðan á vinnumarkaði ógni stöðugleika , til dæmis með hærri verðbólgu, sveiflum á gengi krónunnar og minnkandi hagvexti. Aðspurður hvort ástandið á vinnumarkaði geti sett strik í reikninginn þegar kemur að afnámi hafta segir Bjarni: „Það verður erfiðara ef við höfum áður skapað ástand sem setur þrýsting á krónuna.“