Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um drög að frumvarpi til nýrra laga um ársreikninga.

Ráðið telur að margt í frumvarpsdrögum sé til bóta, sérstaklega einföldun regluverks gagnvart smærri fyrirtækjum.

Viðskiptaráð segir hins vegar að frumvarpið gangi lengra en þörf krefur samkvæmt þeim tilskipunum sem markmiðið er að innleiða. Ráðið segir:

Viðskiptaráð telur æskilegt að löggjöf viðskiptalífsins sé í meginatriðum samræmi við löggjöf á evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar þreytist ráðið ekki á að ítreka mikilvægi þess að reglur séu ekki innleiddar hér á landi með meira íþyngjandi hætti en nauðsyn krefur. Innleiðing reglna með meira íþyngjandi hætti en þörf er á til þess að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands er til þess fallin að skerða samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja með neikvæðum afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf.

Eins og áður hefur verið greint frá á að takmarka arðgreiðslur samkvæmt nýju frumvarpi, en þessi breyting gæti m.a. haft mikil áhrif á fasteignafélögin sem eru skráð á markað. Viðskiptaráð telur þessa reglu vera ranga innleiðingu á tilskipuninni og vonar að ráðuneytið taki ákvæðið til frekari athugunar.

Íþyngjandi ákvæði varðandi skil á ársreikningum

Viðskiptaráð bendir einnig á íþyngjandi ákvæði varðandi birtingu ársreikninga. Samkvæmt frumvarpinu skuli leggja á sektir að fjárhæð 600 þúsund krónum á félög sem vanrækja skyldu sína um að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan tilskilins frests eða leggja fram ófullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi. Um þetta segir í umsögninni:

Að mati Viðskiptaráðs er óeðlilegt að sömu viðurlög liggi við því að skila ekki inn ársreikningi og því að leggja fram ófullnægjandi upplýsingar. Viðskiptaráð telur rétt að viðurlagaákvæði frumvarpsdraganna verði endurskoðuð í heild með það að augnamiði að samræma viðurlög og brot, þannig að ekki liggi sömu viðurlög við því að leggja fram ófullnægjandi upplýsingar og því að skila ekki inn ársreikningi.

Viðskiptaráð telur einnig að nýta ætti heimild tilskipuninnar til að undanskilja örfélög frá skyldu til að skila ársreikningum til opinberar birtinar. Birting slíkra gagna getur verið mjög íþyngjandi fyrir félögin, en þau eru oft stofnuð til að halda utan um rekstur einyrkja. Gæta þurfi að sjónarmiðum um persónuvernd í þessu samhengi.