Frumvarp um endurgreiðslu á virðisaukaskatti og vörugjöldum af notuðum bílum sem yrðu seldir úr landi var til umfjöllunar hjá ríkisstjórninni fyrir helgi og er nú til meðferðar hjá þingflokkunum. B

úist er við að það verði lagt fyrir Alþingi í þessari viku.

Ekki fæst uppgefið um efnisatriði málsins fyrr en það hefur verið lagt fyrir Alþingi en kostnaðarmat ríkisins liggur fyrir. Gengið er út frá því í frumvarpinu að greitt verði hlutfallslega til baka af vörugjöldum miðað við aldur bíls.

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, kveðst telja að það geti tekið allt að tvær vikur að koma málinu í gegnum þingið en hann óttast að hugsanlega geti markaðir fyrir bílana í Evrópu lokast á meðan vegna versnandi efnahagsástands þar.

Nú sé lag þar sem gengi krónunnar sé í lágmarki og notaðir bílar frá Íslandi því samkeppnishæfir á mörkuðum í Evrópu.

5.000 nýir bílar á hafnarbakkanum

Bílaumboðin í landinu hafa fengið fjölmargar fyrirspurnir erlendis frá um útflutning á notuðum bílum en þau sjá sér ekki fært að fara út í þau viðskipti nema til komi endurgreiðsla frá ríkinu. Þau hafa reynt að selja úr landi nýja bíla sem gjöld hafa ekki enn verið greidd af.

Núna eru um 5.000 nýir bílar á hafnarbakka í Reykjavík en þeir voru hátt í 8.000 þegar mest var.