*

föstudagur, 15. nóvember 2019
Innlent 18. maí 2019 18:03

Frumvarp um endurskoðendur stopp

Ástæðan er sú að erfiðlega hefur gengið að ná sátt um hver eigi að hafa eftirlit með störfum endurskoðenda.

Ritstjórn
Fjármálaeftirlitið hefur engan áhuga á því að hafa eftirlit með endurskoðendum eftir sameiningu við Seðlabankann.
Haraldur Guðjónsson

Frumvarp til nýrra heildarlaga um endurskoðendur og endurskoðun hefur verið pikkfast í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í um hálft ár. Ástæðan er sú að erfiðlega hefur gengið að ná sátt um hver eigi að hafa eftirlit með störfum endurskoðenda.

Núgildandi lög um endurskoðendur eru frá árinu 2009 en í talsverðan tíma hefur legið fyrir að Ísland þyrfti að innleiða í landslög tilskipun Evrópusambandsins. Innleiðingunni átti að vera lokið fyrir miðjan júní 2016 en dróst á langinn. Starfshópur um málið, sem samanstóð af fulltrúum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (ANR), endurskoðendaráðinu, FLE og Fjármálaeftirlitinu (FME), skilaði af sér síðasta sumar og var frumvarpið lagt fram í samráðsgátt í september í fyrra.

Hingað til hefur eftirlit með stéttinni verið í höndum endurskoðendaráðs en tveir ráðsmenn geta verið starfandi endurskoðendur. Í frumvarpinu var stefnt að því að eftirlit með endurskoðendum og störfum þeirra yrði fært til Fjármálaeftirlitsins. Slíkt fyrirkomulag hefur lengi verið við lýði í Noregi og reynst vel. Eftir að frumvarpsdrögin voru kynnt í samráðsgáttinni var tilkynnt að stefnt væri að því að sameina Seðlabanka Íslands og FME og þá kom annað hljóð í skrokkinn.

„Starfshópurinn var nýbúinn að skila af sér frumvarpsdrögum í samráð þegar þessi tilkynning berst. Þá runnu náttúrulega tvær grímur á ýmsa og þá sérstaklega FME,“ segir Sigurður B. Arnþórsson, framkvæmdastjóri FLE og fulltrúi félagsins í starfshópnum.

„Þegar lögin árið 2009 tóku gildi þá var FLE skikkað til þess að hafa ýmiss konar eftirlit með störfum endurskoðenda. Félagið fylgist meðal annars með endurmenntun þeirra fyrir hönd ráðsins og að hafa eftirlit með því að allir endurskoðendur hefðu lögbundna ábyrgðartryggingu. Til að geta haft uppi slíkt eftirlit varð að setja skylduaðild að félaginu í lög,“ segir Sigurður.

„Það felst í tilskipun ESB að félagasamtök mega ekki koma að eftirliti með félögum tengdum almannahagsmunum og að þeir sem kveða upp úrskurði megi ekki vera starfandi endurskoðendur. Við höfðum náð þeirri lendingu að þetta myndi færast til FME en í ljósi umræðunnar undanfarið virðist liggja fyrir að slíkt sé ekki vilji hins opinbera,“ segir Sigurður. Allt útlit er fyrir að eftirlitið muni vera áfram hjá endurskoðunarráði en ráðinu verði breytt. 

 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér