Tafir virðast ætla verða á áður boðuðu frumvarpi gegn fjármagnsinnflæði, sem fjármálaráðherra hafði sagt að til stæði að leggja fram á vorþingi. Frumvarpið á að veita Seðlabankanum heimild til að taka á vaxtamunaviðskiptum.

Bindisskylda heppilegri en skattlagning

Már Guðmundsson Seðlabankastjóri sagði í apríl síðastliðnum að það væri heppilegri leið að beita bindiskyldu á innflæði fjármagns heldur en skattlagningu eins og einnig hefði komið til álita. Nefndi hann sem dæmi að féð yrði bundið á núll prósent vöxtum í eitt ár.

Jafnframt að það væri ókostur á skattlagningarleiðinni að ekki væri hægt að bregðast jafn snögglega við aðstæðum á gjaldeyrismarkaði eins og þyrfti enda lægi skattlagningarvaldið hjá Alþingi: „Þá þýðir ekkert að hlaupa niður í þing og biðja um að breyta skattinum,“ sagði Már samkvæmt frétt Vísis um málið.

Nauðsynlegt fyrir losun hafta

Um frumvarpið sagði hann jafnframt: „Við sögðum að þetta þyrfti að koma fyrir almenna losun hafta og kannski æskilegt að það hefði verið í kringum útboðið. Af því þetta var orðið svo mikið, allt sem þurfti að gera í undirbúningi þessara laga og því um líkt, reyndist það ekki mögulegt.“