Stjórnarfrumvarp um heimild til að kyrrsetja eignir aðila sem eru til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hefur verið lagt fram á Alþingi.

Tilgangur frumvarpsins er m.a. að koma í veg fyrir að skattaðilar geti komið sér undan greiðslum opinberra gjalda með því að flytja eða færa eignir úr sinni vörslu í hendur annarra.

„Þannig verður skattaðila, eftir að skattrannsóknarstjóri tilkynnir um rannsókn, óheimilt að ráðstafa eignum sínum með sölu þeirra, veðsetningu eða öðrum löggerningum, hafi tollstjóri krafist tryggingar, nema fyrir liggi tryggingar sem innheimtumaður ríkissjóðs telur fullnægjandi, til tryggingar skaðlausum efndum væntanlegrar skattkröfu," segir í frumvarpinu.

„Þetta á einnig við ef skattaðila hefur verið tilkynnt um eftirlitsaðgerðir ríkisskattstjóra eða skattstjóra."

Frumvarpið hefur verið samþykkt í ríkisstjórn, eins og áður hefur komið fram á vef Viðskiptablaðsins. Fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, mun flytja frumvarpið.

Frumvarpið í heild má finna hér.