Viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um lækkun á dráttarvöxtum. Í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu segir að vonast sé til að málið hljóti samþykki Alþingis fyrir áramót, þannig að ný lög með lægri dráttarvöxtum komi til framkvæmda 1. janúar n.k.

Í tilkynningunni segir að markmið frumvarpsins sé að draga úr kostnaði heimila og fyrirtækja „vegna óhóflega hárra dráttarvaxta, sem leitt geta til mikilla greiðsluerfiðleika og staðið í vegi fyrir að heimilin í landinu komist út úr fjárhagsvandræðum. Þessi breyting er gerð í framhaldi af aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna, sem kynnt var 14. nóvember.“

Í frumvarpinu er miðað við að dráttarvextir verði framvegis 7% álag ofan á algengustu skammtímalán Seðlabankans til lánastofnana í stað 11%. Ennfremur verði heimild Seðlabankans til að ákveða annað vanefndaálag felld á brott.