Frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, var lagt fyrir á ríkisstjórnarfundi í morgun. Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um gjaldeyrismál. Þetta kemur fram í tölvupósti frá forsætisráðuneytinu um dagskrá ríkisstjórnarfunda.

Áætlanir stjórnvalda eru því komnar langt á veg, en þær fólu m.a. í sér slit á þrotabúum gömlu bankana og losun snjóhengjunnar. Eins og viðskiptablaðið hefur áður greint frá, var samið við kröfuhafa föllnu bankanna á síðasta ári og nýlega keyrði Seðlabanki Íslands aflandskrónuútboð í gegn.

Dræm þátttaka var í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands og hafa nokkrir stórir fjárfestingarsjóðir lýst yfir miklu ósætti við aðgerðir stjórnvalda. Þeir sem ekki tóku þátt í útboði seðlabankans, bauðst að fjárfesta í innistæðubréfum útgefnum af Seðlabanka Íslands á 0,5% vöxtum. Sjóðirnir vinna nú að málssókn.

Nýlegar lagabreytingar hafa einnig fært Seðlabanka Íslands aukin völd og hefur bindiskylda reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris náð að draga úr vaxtamunaviðskiptum.

Nýtt frumvarp Bjarna Benediktssonar mun líklegast gefa til kynna hvaða leiðir verði farnar til þess að skapa aukið frelsi innan haftanna.

Önnur mál á dagskrá ríkisstjórnarinnar snérust um samþættingu verkefna samkeppniseftirlitsins, póst- og fjarskiptastofnunar og fjölmiðlanefndar.  Einnig var farið yfir minnisblað innanríkisráðherra um ólöglegt niðurhal og umferðaröryggi.