Formenn fjögurra þingflokka, Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og Frjálslyndra hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um persónukjör í kosningum til Alþingis.

Í frumvarpinu eru lagðar til þær meginbreytingar að þeir sem standa að framboði í kjördæmum eigi kost á því að bjóða fram óraðaða lista í kosningum til Alþingis, kjósi þeir svo, en að gildandi ákvæði laga um kosningar til Alþingis verði að öðru leyti óbreytt, þ.e. að bjóða fram lista með ákveðinni röð frambjóðenda eins og nú er.

Fram kemur í greinargerð að forystumenn stjórnarflokkanna hafi beðið Þorkel Helgason stærðfræðing um að stýra vinnu við undirbúning breytinga á kosningalögum fyrir komandi kosningar til Alþingis. Í vinnuhópnum voru auk hans Ástráður Haraldsson hrl., Eiríkur Tómasson prófessor og Gunnar Helgi Kristinsson prófessor.

Frumvarpið byggir á vinnu þessa hóps.

Með persónukjöri er átt við að kjósendur hafi meiri eða minni áhrif á val á frambjóðendum í kosningum, þ.e. á kjördegi í kjörklefanum eða við utankjörfundaratkvæðagreiðslu, en ekki einungis í prófkjörum.