Frumvarp viðskiptaráðherra um sértryggð skuldabréf er til umfjöllunar í viðskiptanefnd þingsins. Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður nefndarinnar, kveðst ekki geta sagt til um það hvenær frumvarpið verður afgreitt úr nefnd. Hann segir að hagsmunaaðilar hafi þegar sent inn umsagnir um frumvarpið en að nefndin eigi eftir að fjalla betur um það.

Frumvarpið hefur þegar farið fyrir fyrstu umræðu á Alþingi.Stefnt er að því að það verði afgreitt frá Alþingi á þessu vorþingi. „Tilgangur frumvarpsins er að skapa umgjörð til þess að viðskiptabankar, sparisjóðir eða lánafyrirtæki geti hlotið leyfi til þess að gefa út sértryggð skuldabréf sem hafi sérstakan tryggingar- og fullnusturétt í safni eigna sem tilheyra útgefanda hins sértryggða skuldabréfs," segir í fylgiskjali frumvarpsins.

„Samkvæmt frumvarpinu skal Fjármálaeftirlitið skipa sjálfstæðan skoðunarmann sem hefur eftirlit með sérhverjum útgefanda sem fengið hefur leyfi til að gefa út sértryggð skuldabréf og skal útgefandi greiða honum þóknun fyrir starf sitt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á tilteknum greinum frumvarpsins sem geta numið frá 50 þús. kr. til 50 m.kr. og renni í ríkissjóð."