Í drögum að frumvarpi dómsmálaráðherra er lagt til að dómar sem varða viðkvæm persónuleg málefni verði ekki birtir opinberlega, til dæmis í málum varðandi lögræði, sifjar, erfðir, málefni barna, ofbeldi í nánum samböndum, nálgunarbönn og kynferðisbrot.

Þá er lagt til að nafnleyndar verði gætt í dómum og úrskurðum sakamála. Sjónarmiðin að baki frumvarpinu snúa fyrst og fremst að persónuvernd og friðhelgi einkalífs, en bæði hefur misjafnlega verið staðið að dómabirtingum eftir dómsstigum og allnokkur nýleg dæmi um mistök í þeim efnum. Í skýringum með frumvarpinu er áréttuð sú meginregla í réttarfarinu að málsmeðferð sé opinber, en með frumvarpinu sé leitast við að takmarka aðgengi að persónuupplýsingum.

Skoðanir eru skiptar um frumvarpið en Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, segir ástæðulaust að takmarka birtinguna svo mjög, ritstjórnum fjölmiðla í landinu sé vel treystandi til að meta það hvenær nafnbirtingar séu réttar og hvenær ekki.