Fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra hafa báðir sagt að frumvarp um stöðugleikaskatt, vegna afnáms gjaldeyrishafta, verði lagt fyrir í þessari viku. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Ekki hefur fengist staðfest hvernig stöðugleikaskatturinn verði útfærður né til hvaða eigna hann nái. Krónueignir slitabúa föllnu bankanna eru þó taldar líklegt andlag skattsins.

AGS vill ekki mismunandi meðferð

„Eins og fjármálaráðherra hefur sagt þá má gera ráð fyrir því jafnvel í þessari viku. Mér sýnist það allt vera nánast til reiðu svo það er ekki til ástæða til annars en að ætla að sú tímasetning geti gengið eftir,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra í samtali við Stöð 2, spurður út í stöðugleikaskattinn.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt áhersu á að afnám fjármagnshafta styðjist við sett lagaákvæði og úrræði sem feli ekki í sér mismunun. Í samtali við fréttastofu Stöð 2 kemur fram að sjóðurinn telji ríkisstjórnina vera búna að velta fyrir sér öllum hliðum málsins, en hvort afnám hafta feli í sér einhverskonar mismunun verði að koma í ljós þegar tillögur ríkisstjórnarinnar verða kynntar.