Ný ríkisstjórn hyggst breyta lögum um sérstakt veigjald á sumarþingi. Stefnt er að bráðabirgðabreytingum til eins árs og verður svo fundin framtíðarlausn á gjaldtökunni. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Eins og greint hefur verið frá þá hefur ekki verið hægt að innheimta hið sérstaka veiðigjald þar sem nauðsynleg gögn til útreikninganna skortir.

„Lögin sem eiga að taka gildi 1. september eru óframkvæmanleg. Við erum hins vegar ekki tilbúin með nýja aðferðarfræði. Það þýðir að að til þess að hægt sé að leggja á eitthvert sérstakt veiðigjald þarf að fara bráðabirgðaákvæðisleið til eins árs,“ segir Sigurður Ingi í samtali við Fréttablaðið.

Sigurður reiknar með að bráðabirgðagjaldtakan verði í formi fastrar krónutölu á þorskígildiskíló en getur þó ekki fjallað um útfærsluna í smáatriðum.