Alþingi samþykkti í gærkvöldi lög um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins (FME) en breytingin tekur gildi um næstu áramót. Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpinu milli annarrar og þriðju umræðu.

Ekki voru gerðar breytingar á þeim verkefnum sem eru á ábyrgð stofnananna heldur var stefnt að því að sameina stjórnskipan og fyrirkomulag ákvarðanatöku hjá einni stofnun. Frumvarpið felur í sér að seðlabankastjórar verða fjórir, einn aðal og þrír til vara. Varaseðlabankastjórarnir skipta peningastefnu, fjármálastöðugleika og fjármálaeftirliti sín á milli.

Frumvarpið sætti nokkurri gagnrýni af hálfu umsagnaraðila. Meðal annars var það gagnrýnt að ráðherra hefði í raun, samkvæmt frumvarpinu, neitunarvald yfir þjóðhagsvarúðartækjum með því að reglur Seðlabankans þyrftu samþykki ráðherra. Þá var einnig sett út á það verkefni Lánamála ríkisins væru innan Seðlabankans en FME væri falið eftirlit með þeirri starfsemi. Gerðar voru breytingar á frumvarpinu af hálfu efnahags- og viðskiptanefndar til að lagfæra þessa vankanta. Var það gert milli fyrstu og annarrar umræðu.

Áður en til þriðju umræðu kom féllst meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar síðan á að gera tillögur fyrsta minnihluta nefndarinnar að sínum. Þær tillögur komu frá fulltrúum Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata í nefndinni. Álit annars minnihluta, það er Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um að fresta gildistöku laganna, til að huga að álitamálum er varða viðskiptaháttaeftirlit, fékk ekki brautargengi.

Breytingarnar sem samþykktar voru í gær fela meðal annars í sér að kröfur til hæfni bankaráðsmanna verða auknar en nú er gerð krafa um að þeir hafi staðgóða þekkingu á stjórnsýslu og regluverki bankans. Einnig skuli leitast við að tryggja að þeir hafi víðtæka þekkingu á íslensku efnahagslífi og fjármálamarkaði.

Aðrar breytingar voru á þann veg að formaður nýrrar fjármálaeftirlitsnefndar hinnar sameinuðu stofnunar verði í höndum varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits í stað seðlabankastjóra. Þá skal fara fram ytra mat á starfsemi bankans á fimm ára fresti og að innan tveggja ára frá gildistöku laganna, það er árið 2022 rennur upp, skuli vinna skýrslu um reynsluna af starfi nefnda Seðlabankans.