Að sögn Páls Þorsteinssonar, upplýsingafulltrúa Toyota, hafa áhrif af frumvarpi því sem sett var í desember, til að liðka fyrir útflutningi bíla, verið nánast engin. ,,Eins og við bentum á þegar verið var að breyta lögunum hefði verið eðlilegra að virðisaukaskattur fengist til baka af söluveðinu óháð aldri bílsins," sagði Páll.

,,Eins og frumvarpið er sett fram þá fæst engin endurgreiðsla ef bifreiðin er 5 ára eða eldri. Vörugjöldin mætti tengja aldri, en þó ætti ekki að afskrifa þau svo bratt sem gert er. Eðlilegt er að sá tími sé a.m.k. 8 ár. Þá teljlum við eðlilegt að þessar heimildir séu alltaf til staðar en ekki tímabundnar," sagði Páll.

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis fellst á að heimilt verði að endurgreiða vörugjald og virðisaukaskatt af bílum sem eru afskráðir og fluttir úr landi og var það samþykkt í byrjun desember.

Fjármálaráðherra lagði nýverið fram frumvarp þessa efnis fram á Alþingi. Meirihluti nefndarinnar er fylgjandi frumvarpinu en leggur þó til þær breytingar að heimild til endurgreiðslu verði lengd til  31. desember 2009. Í frumvarpinu er miðað við 1. apríl 2009.