Kristófer Már Maronsson, nýkjörinn formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir margt jákvætt við nýtt frumvarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN). Hann segir að ný lög yrðu kjarabót fyrir flesta nemendur Háskóla Íslands og fagnar því að framfærsla nemenda hækki í 100%. Hann segir þó jafnframt að Stúdentaráð hafi enn ekki fengið frumvarpið í heild sinni í hendurnar og kafað verði dýpra ofan í það.

Hvernig líst þér á frumvarpið?

Við fyrstu sýn lítur þetta mjög vel út. Þó við höfum ekki fengið allt frumvarpið í hendurnar þá eru upplýsingarnar sem eru komnar fram helst til jákvæðar. Þetta er framfaraskref, að fá framfærsluna í 100% er stórgott og að styrkurinn sé ekki bundinn við lán lengur er frábært. Mun auðveldara er að skilja og sjá beina styrki heldur en falda styrki eins og eru í núverandi kerfi.

Telurðu á heildina litið að það sé til bóta fyrir háskólanema?

Ef við horfum til fjöldans, þá sýnist mér þetta vera kjarabót fyrir flesta nemendur Háskóla Íslands. Það eru margir nemendur sem taka ekki námslán en vinna mikið með námi í staðinn, þessir nemendur geta nú fengið styrk og þar af leiðandi unnið minna og einbeitt sér betur að náminu. Einnig hafa nú sumir sem eru í hlutanámi og vinnu með, möguleikan á því að minnka við sig vinnu og einbeita sér betur að náminu, því það fær styrk ef það bætir námsframvinduna. Þá er alveg stórkostlegt að framfærsla nemenda hækki loksins í 100%.

Hvað er það sem þér finnst best við frumvarpið?

Það sem mér þykir best við frumvarpið er að framfærsla nemenda verður 100% og að fólk sem ekki tekur lán á nú möguleika á styrk.

Hvað finnst þér vera helsti galli frumvarpsins? Eru einhverjar breytingar sem þú sérð til hins verra eða eitthvað sem vantar í það?

Það sem stingur mig helst af því sem við höfum í höndunum er að hámarks námsaðstoð lækkar niður í 420 ECTS einingar.

Þú hefur vakið mikla athygli fyrir hugmynd þína að lausnum sem miða að því að auðvelda íbúðakaup . Í frumvarpinu er boðið upp á að fresta greiðslum á námslánum til að liðka fyrir kaupum á fyrstu íbúð. Ertu ánægður með þennan hluta?

Ég persónulega er mjög hrifinn af þessu ákvæði sem er einn af þeim mörgu þáttum sem gera ungu fólki erfitt að kaupa fyrstu íbúð, þetta er jákvætt.

Frumvarpsins hefur verið beðið með talsverðri eftirvæntingu. Er þetta nálægt því sem þú bjóst við?

Þetta er að miklum hluta í samræmi við kröfurnar sem Stúdentaráð hefur beitt sér fyrir, það virðist hafa verið tekið tillit til flestra þeirra athugasemda sem við fengum að senda inn, þó þetta sé ekki nákvæmlega eins og við óskuðum eftir, en samt betra en núverandi kerfi fyrir flesta sýnist mér. Ég hlakka til að Stúdentaráð fái frumvarpið í heild sinni í hendurnar svo hægt sé að kafa dýpra ofan í það.