Nýtt frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um afnám laga um kjararáð tekur mið af tillögum starfshóps forsætisráðherra um málefni ráðsins sem lagðar voru fram í febrúar.

Í tillögunum er gert ráð fyrir nýju fyrirkomulagi við ákvörðun launa þeirra sem heyrðu undir ráðið eftir að það yrði lagt niður.

Tillögurnar fela m.a. í sér að laun hluta þeirra sem féllu undir vald kjararáðs verði ákvörðuð með lögum í fastri krónutölu sem verði endurákveðið á hverju ári með tilliti til meðaltalshækkun reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

Á það við um þjóðkjörna menn, ráðherra, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra auk þess sem dómarar, saksóknarar, ráðuneytisstjórar og ríkissáttasemjarar geta fengið álag fyrir yfirvinnu m.v. tiltekið tímamark.

Aðrir fái svo laun með hliðsjón af kjarasamningum, það er forsetaritari, nefndarmenn úrskurðarnefnda í fullu starfi, skrifstofustjórar ráðherra og sendiherrar.

Rökin fyrir því að festa laun sumra starfshópa við síðasta úrskurð kjararáðs snúa að því að framkvæmdavaldið hafi ekki aðkomu að ákvörðun launa og starfskjara þeirra starfa sem eiga að vera sjálfstæð gagnvart framkvæmdavaldinu að því er segir á vef ráðuneytisins.