*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 4. mars 2015 08:04

Frumvarpsdrög um millidómstig tilbúin

Hæstaréttardómarar verða sex í stað níu samkvæmt nýju frumvarpi um upptöku millidómstigs.

Ritstjórn
Hæstiréttur Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Nefnd um millidómstig hefur nú skilað frumvarpsdrögum til Ólafar Nordal innanríkisráðherra. Í drögunum er meðal annars lagt til að héraðsdómum verði almennt áfrýjað til Landsréttar en Hæstiréttur sinni aðeins veigamiklum og fordæmisgefandi málum. Fréttablaðið greinir frá málinu.

Þar kemur fram að lagt sé til að fimmtán dómarar muni eiga sæti í nýju millidómstigi og þrír þeirra muni dæma í hverju máli. Hæstaréttardómurum verður fækkað úr níu í sex, og munu fimm dómarar dæma í hverju máli sem kemur fyrir réttinn. Starfandi dómarar munu hins vegar halda stöðu sinni og munu því fleiri dómarar líklega starfa í réttinum fyrstu árin til bráðabirgða.

Reglur um áfrýjun mála frá héraðsdómi til Landsréttar verða svipaðar reglum sem nú gilda um áfrýjun til Hæstaréttar. Hins vegar verður áfram hægt að áfrýja dómum héraðsdóms beint til Hæstaréttar en aðeins með leyfi réttarins. Þá er gert ráð fyrir að allir dómarar Hæstaréttar geri grein fyrir atkvæði sínu með því að skrifa sín eigin atkvæði eða skrifa undir atkvæði annarra.