*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 17. janúar 2016 12:49

Frumvörp um Landsrétt lögð fram til umsagnar

Innanríkisráðherra hefur lagt fram til umsagnar tvö frumvörp sem munu koma á fót nýju millidómstigi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Nýtt millidómstig - Landsréttur - verður stofnað verði tvö frumvörp sem innanríkisráðuneytið hefur kynnt að lögum. Drög að frumvörpunum hafa verið birt á vefsíðu innanríkisráðuneytisins.

Stofnun millidómstigs hefur lengi verið til umræðu. Frumvarp um millidómstig var fyrst lagt fram á Alþingi á árunum 1975-1976 en náði ekki fram að ganga, jafnvel þó það hafi verið lagt fram alls fimm sinnum á árunum þar á eftir.

Staðan sögð vera alvarleg

Tilefni lagabreytinganna nú eru tilgreind í athugasemdum við frumvörpin. Þar segir að alvarlega sé farið á svig við meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir Hæstarétti í lögum og réttarframkvæmd.

Þá sé óviðunandi að sérfróðir meðdómendur skuli ekki taka þátt í áfrýjunarmeðferð í málum þar sem reynir á sérkunnáttu og dæmd hafa verið á fyrsta dómstigi af sérfróðum meðdómendum. Loks skapi óhóflegt vinnuálag í Hæstarétti hættu á að réttarskapandi áhrif dóma réttarins verði minna en æskilegt væri.

Þröngar heimildir til áfrýjunar til Hæstaréttar

Verði frumvörpin að lögum verður komið á þriggja þrepa dómskerfi. Öll dómsmál myndu hefjast á fyrsta dómstigi, og takmarkanir á málskotsheimildum frá héraðsdómi til Landsréttar yrðu sambærilegar því sem nú er varðandi málsskot til Hæstaréttar.

Gert er ráð fyrir að sem allra fæst dómsmál komi til meðferðar á þremur dómstigum. Heimild um að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar verður þröng, samkvæmt þeim drögum sem hafa verið kynnt. Dómum Landsréttar verður eingöngu áfrýjað með leyfi Hæstaréttar að uppfylltum þröngum skilyrðum.

Gert er ráð fyrir að aðilar eigi kost á að framkvæma munnlega sönnunarfærslu fyrir Landsrétti eftir því sem nauðsynlegt þykir, en að sönnunarfærsla fyrir Landsrétti verði þó að miklu leyti byggð á endurritum af skýrslum fyrir héraðsdómi. Almennur áfrýjunarfrestur í einkamálum verður styttur úr þremur mánuðum í fjórar vikur, í samræmi við lengd áfrýjunarfrestar í sakamálum. Gert er ráð fyrir að aðeins hæstaréttarlögmenn skuli gæta hagsmuna aðila í málum fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Auk þess að koma á fót nýju dómstigi myndu frumvörpin koma á fót nýrri stjórnsýslustofnun dómstóla til að efla stjórnsýslu dómstólanna og styrkja sjálfstæði þeirra.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is