Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði frumvarp fyrir ríkisstjórnarfund í morgun. Frumvarpið byggir á niðurstöðum nefndar forsætisráðherra um viðurlög við efnahagsbrotum og eru helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu, samkvæmt upplýsingum úr viðskiptaráðuneytinu, að refsiábyrgð einstaklinga vegna brota gegn samkeppnislögum verður afmörkuð nánar. Þá var einnig lagt fyrir fundinn frumvarp um innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og Evrópuráðsins um millilandasamruna félaga með takmarkaðri ábyrgð.

Tilskipuninni er ætlað að auka samvinnu félaga á Evrópska efnahagssvæðinu og samruna frá mismunandi EES-ríkjum. Þar er átt við millilandasamruna sem gerir ráð fyrir að félög í öðrum EES-ríkjum geti tekið þátt í samruna, sé hann leyfður innanlands. Þar með yrði um millilandasamruna að ræða en ekki innanlandssamruna. Verði tilskipunin leidd í íslenskan rétt mun sveigjanleiki íslenskra félaga sem eiga í samstarfi á EES-svæðinu aukast, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.

Gert er ráð fyrir svipuðum reglum og í lögum um Evrópufélög um eftirlit og framkvæmd mála. Samrunaáætlun skal send stjórnvöldum í viðkomandi ríkjum sem gefa út vottorð. Samruni er svo tilkynntur stjórnvöldum í öðrum ríkjum og að því loknu fer fram skráning viðkomandi ríkjum.