G20 ríkin svokölluðu – hópur ríkustu landa heims sem sín á milli stendur undir 90% heimsframleiðslu og 80% alþjóðaviðskipta – ákváðu í síðustu viku að frysta lánagreiðslur 77 af fátækustu löndum heimsins út árið vegna heimsfaraldursins.

Góðgerðasamtökin og baráttuhópurinn Jubilee Debt Campaign meta umfang frystingarinnar á 12 milljarða Bandaríkjadala, en til samanburðar nemur aðgerðarpakki bandarískra yfirvalda einn og sér 2 þúsund milljörðum dala.

Greiðslurnar verða þar að auki ekki gefnar eftir, heldur einungis frestað, og munu því bætast við greiðslubyrði viðkomandi ríkja á næstu árum. Hópurinn telur aðgerðirnar góða byrjun, en segir frekari aðgerða þörf.

G20 ríkin kölluðu enn fremur eftir því að einkaaðilar sem eru lánveitendur fátækra ríkja ráðist í sambærilegar aðgerðir, en lögðu áherslu á að slíkt yrði valfrjálst.

Þessu mótmælti Jubilee Debt og mæltist til þess að lögum yrði breytt til að tryggja að einkalánveitendur gætu ekki leitað til dómstóla til að fullnusta greiðslur frá fátækum ríkjum meðan á faraldrinum stendur.