Frystitogararnir týna tölunni

Frystitogurum á landinu hefur fækkað mjög undanfarin ár. Flestir voru þeir 35 talsins árið 1998 en eru nú einungis 11 alls. Þetta kemur fram í fróðlegri samantekt Eiríks Óla Dagbjartssonar, útgerðarstjóra Þorbjarnarins hf. í Grindavík.

Saga frystitogara á Íslandi nær ekki yfir langt tímabil en hún er forvitnileg. Eiríkur Óli hefur velt fyrir sér risi og falli þessa útgerðarmynsturs og rekur upphafið til ársins 1982.

Á þessum árum var verið að smíða nýja ísfiskstogara þrátt fyrir að rekstrargrundvöllurinn hafi verið hruninn. Þar réði samspil margra þátta en Eiríkur Óli telur nokkuð ljóst að einn þeirra veigamestu hafi verið ofveiði.

„Það var engin afkoma, hvorki af útgerð né fiskvinnslu á þessum árum,“ segir Eiríkur Óli.

Samherji keyptur

Hann minnist þess þegar Kristján Vilhelmsson sagði skemmtilega sögu af því þegar hann og bróðir hans Þorsteinn, og frændi, Þorsteinn Már Baldvinsson, fengu þá hugmynd að kaupa útgerðarfyrirtækið Samherja í Grindavík. Feður þeirra, Vilhelm og Baldvin Þorsteinssynir, höfðu báðir verið lengi í stjórnunarstöðum hjá Útgerðarfélagi Akureyrar. Þeir bræður vissu sem var að það var mjög erfitt að gera út togara á þessum árum og glapræði að reka frystihús.

„En að ætla svo að sameina þetta tvennt, útgerð togara og rekstur frystihúss, fannst gömlu mönnunum fullkomin fásinna og viðruðu þá skoðun sína við ungu mennina sem voru í þann mund að fara að kaupa Samherja suður í Grindavík,“ segir Eiríkur Óli.

Fyrirtækinu fylgdi isfisktogarinn Guðsteinn GK 140, smíðaður í Póllandi 1974, sem þeir frændur breyttu og gáfu nafnið Akureyrin EA 110.

Þorsteinn Már starfaði á þessum árum sem framkvæmdastjóri Slippsins í Njarðvíkum. Hann hafði fengið skipstjórnarréttindi frá Stýrimannaskólanum 1974 og útskrifaðist sem skipaverkfræðingur frá Norges Tekniske Högskola árið 1980. Hann hafði kynnst frystitogurum í Noregi sem stýrimaður.

Breytt í frystitogara í smíðaferlinu

Nokkru áður hafði smíði hafist á togaranum Örvari HU á Akureyri fyrir útgerðarfélagið Skagstrending á Skagaströnd. Þetta átti að vera hefðbundinn ísfiskari. En það var að renna upp ljós fyrir mönnum að það var enginn rekstrargrundvöllur fyrir skipið. Skagstrendingur skipti um kúrs á miðjum smíðaferlinum og lét breyta skipinu í frystitogara, þann fyrsta í íslenska flotanum. Eiríkur Óli segir að Örvar HU hafi verið fengsælt og farsælt skip frá fyrsta degi. Skagstrendingar eru því brautryðjendur á þessu sviði. Næsti frystitogarinn var svo Hólmadrangur ST 70 frá Hólmavík.

Þeir Samherjafrændur gerðu svo slíkt hið sama við Guðstein GK, breyttu honum í frystitogara og gáfu nafnið Akureyrin. Skipið malaði gull fyrir nýja eigendur Samherja. Stóra málið var að geta sameinað veiðar og vinnslu um borð í skipunum. Afurðirnar, sjófryst flök, gengu beint inn á fish&chips markaðinn í Bretlandi.

„Ég held að þetta hafi verið lykillinn að velgengninni. Markaðurinn ytra lærði fljótt á gæðin sem eru óumdeild í sjófrystum fiski. Þannig færðist verðmætasköpunin út á sjó,“ segir Eiríkur Óli.

35 frystitogarar árið 1998

Eiríkur Óli fékk sjálfur skipstjórnarréttindi árið 1986 og var um tíu ára skeið skipstjóri hjá Fiskanesi á litlum fiskibát. Það var svo ekki fyrr en upp úr 2000, þegar hann var ráðinn útgerðarstjóri hjá Þorbirni, að hann fór sinn fyrsta túr á frystitogara, eða raunar aðeins hálfan túr á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK til að kynnast veiðunum.

Enn hélt frystitogurunum áfram að fjölga. Árið 1987 voru þeir orðnir tólf, 23 árið 1991 og 35 árið 1998. Þá eru rækjuskip ekki talin með sem þó voru oft á blönduðum veiðum. Undir aldamótin fer að halla undan fæti og frystitogurum fer að fækka.

„Ég vil meina að árin 2012 og 2013 í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafi öll framlegð farið út úr rekstri frystitogaranna. Útgerðirnar voru beittar fantaskap í álagningu veiðigjalda og í framhaldinu fækkaði frystitogurum jafn hratt og raun bar vitni. Þeir voru flestir 35 en ætli þeir séu ekki ellefu talsins í dag.“

HB Grandi gerði til að mynda um langt árabil út fimm frystitogara en þeim fækkaði á skömmum tíma niður í tvo. Ögurvík hafði gert út Vigra og Frera í mörg ár en lögðu Frera. Ramminn á Siglufirði hafði lengi gert út þrjá frystitogara en gera nú einungis út Sólbergið. Skagstrendingur gerði lengi út þrjá frystitogara en fóru niður í einn. Stálskip, sem gerði út Þór HF, hættu sjávarútvegstengdri starfsemi.

Veiðigjöld og hrun í þorskverði

Eiríkur Óli segir að veiðigjöldin hafi lagst þyngra á útgerð frystitogara en annarra eins og fyrirkomulagið var á þessum árum. Veiðigjöldin voru ákvörðuð út frá aflaverðmætunum og þau voru auðvitað umtalsvert meiri hjá frystitogurunum en ísfiskskipunum.

„Önnur veigamikil ástæða fyrir því að frystitogurum fækkaði var hrun á þorskverði 2012-2013 eftir að aflaheimildir í Barentshafi voru stórauknar.  Aukið framboð knúði fram enn frekari verðlækkanir. Við sáum verð á algengustu afurðinni í frystitogurunum, millistórum þorskflökum, roðlausum með beini, fara lægst undir þrjú sterlingspund kílóið. Í mars 2013 stóð það í 2,9 pundum. Til samanburðar voru þessi verð komin upp í sjö pund rétt áður en hremmingarnar vegna Covid-19 veirunnar hófust í mars síðastliðnum.“

Á þessum árum vildi breski markaðurinn einungis roðlaus flök með beini og flök með roði og beini, en nú orðið tekur hann einnig roðlaus, beinlaus flök. Bandaríkjamarkaðurinn einskorðast við roðlaus, beinlaus flök.

Ferskfiskmarkaðir opnast

Þriðja ástæðan fyrir fækkun frystitogaranna, að mati Eiríks Óla, er sú þróun að mörg útgerðarfyrirtæki færa sig yfir í framleiðslu á ferskum fiski. HB Grandi sé sennilega skýrasta dæmið um þetta. Fyrirtækið fór að leggja stóraukna áherslu á veiðar ísfisktogaranna og að vinna fiskinn í landi. Sú aukning sem verður í ferskfiskútflutningi tengist jafnt fjölbreyttari flutningsleiðum og markaðsmálum.

Eiríkur Óli bendir á að sama þróun hafi átt sér stað í Noregi og Færeyjum. Í Noregi fækkaði frystitogurum til að mynda úr 20 í þrjá á árunum 2004 til 2014. Þar voru þó aðrir hvatar að baki. Norðmenn fóru að færa sig meira yfir í hausaðan og slægðan fisk sem tengdist launauppbyggingunni um borð í skipunum þar sem hægt var að fækka í áhöfnum þeirra þegar þeir vinna einungis hausaðan fisk. Nýtingastuðlar í flakavinnslu í Barentshafi eru líka mjög óhagstæðir og verri eftir því sem flökin eru meira unnin. Þetta hefur líka stuðlað að minni flakavinnslu þar. Við Ísland er hins vegar stuðst við raunnýtingu eftir vinnsluaðferðum í hverri veiðiferð. Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu fylgjast svo með og eru um borð sirka 2 túra á ári auk þess sem þeir taka út vinnslusýni tvisvar á ári þar fyrir utan.

Vinnsla á hausuðum fiski varð aldrei að neinu ráði um borð í íslenskum skipum. Athyglisvert er þó að á sama tíma og frystitogurum fækkar á Íslandi, Noregi og Færeyjum fjölgar þeim í Rússlandi. Frá 2008 til 2014 fjölgaði þeim úr 12 í 20 og hefur fjölgað enn frekar síðan þá.

Rússíbanareið

Eiríkur Óli segir að talsverð líkindi séu með því að stunda sjófrystingu á Íslandi og að vera í rússíbana. Hann skýrir þetta nánar með þessum hætti:

„Það eru margir ytri þættir sem geta breyst hratt og mikið. Afurðaverðið sveiflast upp og niður. Sveiflurnar eru margar frá því ég fór að hafa afskipti af þessum málum um síðustu aldamót. Ég nefni sem dæmi  Creutzfeldt Jakops sjúkdóminn, kúariðuna sem var mál málanna upp úr aldamótum. Kjötneysla dróst verulega saman um allan heim og fiskneysla rauk upp. Fiskverð náði hæstu hæðum. Svo var skyndilega  eins og allir hefðu gleymt öllu um Creutzfeldt Jakops sjúkdóminn og fiskverð hrundi. Olíuverð skiptir sjófrystinguna gríðarlega miklu máli. Olíukostnaður sem hlutfall af verðmætunum er sömuleiðis afar sveiflukenndur. Við erum líka með blessaða krónuna okkar sem sveiflast umtalsvert upp og niður. Sveiflurnar í fiskistofnunum og ástand þeirra er einn þátturinn til viðbótar. Á minni tíð sem útgerðarstjóri höfum við verið að vinna með heildarþorskkvóta sem hefur sveiflast frá því að vera allt niður í 130.000 tonn og upp í það að vera nálægt 300.000 tonnum. Þorskurinn er okkar lykiltegund og af þessu má sjá að það er margt sem getur breyst í þessari grein,“ segir Eiríkur Óli.