Við stofnun Framtakssjóðsins var markmið hans að „taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs“. Sjóðnum var ætlað að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll.

Viðskiptablaðið spurði um útlit fyrir árið 2013 og hvort stefnt sé að sölu fyrirtækja í eigu sjóðsins á árinu. Hafliði Helgason, upplýsingafulltrúi sjóðsins, segir að FSÍ tjái sig ekki um fyrirætlanir varðandi innlausn eigna né fjárfestingar í náinni framtíð. „Sjóðurinn vinnur með félögum í eignasafni sínu að mótun stefnu með það að markmiði að ná sem bestum rekstrar- árangri hjá félögum í sinni eigu. Hvort, hvenær eða hvernig FSÍ kemur að nýjum verkefnum verð- ur tíminn að leiða í ljós,“ segir Hafliði.

Líftími FSÍ er allt að tíu ár. Honum á því að vera slitið í síðasta lagi árið 2019. Heimildir til fjárfestinga eru hins vegar til 2014. Fyrirkomulag er þannig að nýfjárfestingar eru fjármagnaðar með nýju hlutafé frá eigendum og því er söluandvirði eigna greitt út strax eftir sölu fyrirtækja. Alls námu hlutafjárloforð 54 milljónum í upphafi og hafa 32 milljarðar þegar verið innkallaðir. Eftir standa 22 milljarðar sem FSÍ gæti sótt ef ákveðið verður að fjárfesta í fleiri fyrirtækjum. Að sögn Hafliða hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort FSÍ eignist fleiri fyrirtæki.

Ítarlega var fjallað um Framtakssjóðinn í Viðskiptablaðinu 17. janúar 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.