Framtakssjóður Íslands (FSÍ) og fjárfestingasjóðurinn Triton funda um sölu á Icelandic Group seinnipartinn í dag. Stefnt er að því að taka ákvörðun um hvort erlendi hluti félagsins verði seldur Triton. Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri FSÍ, staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

Viðræður á milli aðilanna hafa staðið yfir frá því í desember og hafa forsvarsmenn FSÍ sagt að reynt yrði á viðræður við Triton út janúarmánuð.

Mikið hefur verið fjallað um söluferli í fjölmiðlum, bæði hérlendis og erlendis. Þá hefur málið verið rætt á Alþingi. FSÍ hefur verið gagnrýndur fyrir að setja félagið ekki í opið söluferli og ræða eingöngu við evrópska fjárfestingasjóðinn Triton. Erlend félög, þar á meðal kanadíska félagið High Liner Foods, hafa opinberlega lýst yfir áhuga á að kaupa Icelandic Group. Þau hafa gagnrýnt að þeim er ekki mögulegt að bjóða í félagið.

Í gær var síðan sagt frá því á vef IntraFish að tveir bandarískir fjárfestingasjóðir hafi kvartað til fjármálaráðuneytisins þar í landi vegna þess að tilboð þeirra í Icelandic Group var ekki skoðað. Sagði í fréttinni að fjármálaráðuneytið í Bandaríkjunum skoði nú málið.