Framtakssjóður Íslands seldi 19,37% hlut sinn í Vodafone þann 2. apríl síðastliðinn sem var fyrsti viðskiptadagur eftir fyrsta ársfjórðung á þessu ári. Bréf Vodafone hafa lækkað mikið eftir að uppgjör fyrsta ársfjórðungs var kynnt í gærmorgun.

Þegar Framtakssjóðurinn seldi bréfin gegndi Þór Hauksson, fjárfestingastjóri hjá Framtakssjóðnum, stöðu stjórnarformanns Vodafone. Eftir aðalfund félagsins 11. apríl tók ný stjórn við og fór Þór úr stjórn Vodafone.

Sjóðurinn ekki fruminnherji

Hafliði Helgason, upplýsingafulltrúi Framtakssjóðsins, segir að sjóðurinn hafi ekki verið skilgreindur sem fruminnherji á þessum tíma. Þór var hins vegar fruminnherji. Fyrir fruminnherja gildir að þeir hafa sex vikur til að eiga viðskipti frá því að síðasta uppgjör var birt að sögn Hafliða. Á Hafliði þar við uppgjör Vodafone fyrir árið 2012 sem var kynnt í mars.

Því var sjóðurinn innan þeirra reglna auk þess sem hann var ekki skilgreindur sem fruminnherji að sögn Hafliða. Hann segir að Þór hafi ekki komið að sölunni á hlutabréfum í Vodafone.

Mikil lækkun

Gengi bréfa Vodafone endaði í 30 við lokun markaða í gær. Það var fyrsti viðskiptadagur með bréfin eftir birtingu uppgjörs fyrir fyrsta ársfjórðung 2013 sem tók til loka mars. Þegar Framtakssjóðurinn seldi hlutinn fyrir um 2,3 milljarða fóru stærstu viðskiptin fram á genginu 34,75. Bréfin höfðu því lækkað um 13,7% við lok markaða í gær frá því að Framtakssjóðurinn seldi hlut sinn í apríl.