Stoðtækjafyrirtækið Össur hefur keypt krónur erlendis og flutt heim til að greiða kostnað hér. Fyrirtækið er á sérstökum undanþágulista Seðlabankans vegna gjaldeyrishaftanna.

Sigurborg Arnarsdóttir, fjárfestatengill Össurar, staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið en leggur um leið áherslu á að þessi krónukaup séu mjög lítil.

Önnur stór útflutningsfyrirtæki á undanþágulista Seðlabankans sem Viðskiptablaðið hefur haft samband við í vikunni, ef frá eru talin tvö álfyrirtæki, segjast ekki hafa átt nein viðskipti með krónur erlendis. Þau eigi slík viðskipti hér heima.

Þetta á við um Bakkavör, Marel, Eimskipafélagið, Actavis og Alfesca. Sömu sögu segja forsvarsmenn útgerðarfélaganna Samherja, HB Granda og Brims.

Með því að nýta tekjur sínar erlendis geta fyrirtækin keypti krónur á hagstæðara gengi en hér heima og fengið þar með fleiri krónur fyrir erlenda gjaldeyrinn.

Kemur til greina að herða reglurnar

Fyrrnefndu álfyrirtækin tvö, Alcoa Fjarðarál og Alcan á Íslandi, sem einnig eru með undanþágur frá gjaldeyrisreglunum segjast hafa varið litlum hluta tekna sinna í viðskipti með krónur erlendis og notað þær til að greiða kostnað hér heima.

Talsmaður þess síðarnefnda tekur þó fram að félagið hafi ákveðið að verða við  þeirri ósk Seðlabankans að láta af slíkum viðskiptum.

Seðlabankinn hefur gefið út að hann vilji ræða við stór útflutningsfyrirtæki til að koma í veg fyrir umrædd viðskipti en samkvæmt núgildandi reglum eru þau ekki ólögleg. Þó komi til greina að herða gjaldeyrisreglurnar til að svo megi verða.

Þess vegna hefur Seðlabankinn boðað stærstu útflutningsfyrirtækin á sinn fund. Talsmenn Alcoa Fjarðarál og Alcan á Íslandi staðfesta að þau muni funda með Seðlabankamönnum í lok vikunnar.

Önnur stór fyrirtæki sem eru með undanþágur og Viðskiptablaðið ræddi við segjast ekki hafa fengið neitt fundarboð í Seðlabankann vegna þessa máls.

Höftin eiga að halda

Þegar Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra er spurður hvort það sé alslæmt að fyrirtæki eigi viðskipti með krónur erlendis - hvort það geti jafnvel orðið til þess að jafna mismuninn á genginu hér og úti -svarar hann: „Meðan við erum með þessi höft viljum við sjá til þess að þau haldi."

Hann segir að það sé í höndum Seðlabankans að búa þannig um hnútana að fyrirtæki nýti sér ekki undanþágur til að stunda viðskipti með krónur erlendis. Til dæmis geti bankinn afturkallað undanþágurnar.

„Seðlabankinn hefur haft þessi mál til skoðunar," segir hann. „Ég á ekki von á öðru en að Seðlabankinn muni fylgja þessu fast eftir þannig að úr þessu verði bætt."

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .