Financial Times fjallar um fasteignamarkaðinn á Íslandi og áhuga erlendra aðila á fasteignakaupum hér á landi. Segir í fréttinni að í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 hafi fasteignaverð lækkað um 12% þangað til verðið fór að hækka á ný árið 2010.

En verð á dýrum íbúðum hafi ekki byrjað að hækka að ráði fyrr en árið 2013. Vitnar greinin í greinanda hjá Landsbankanum sem segir að verð muni hækka um 24% á næstu þremur árum.

„Með auknum ferðamannastraum þá eru sífellt fleiri erlendir kaupendur á hverju ári," er haft eftir Ingólfi Gissurarsyni hjá fasteignasölunni Valhöll sem segir nóg af dýrum fasteignum miðsvæðis á leið á markað.

Flestir erlendur kaupendur frá Bandaríkjunum

„Flestir erlendu kaupendurnir koma frá Bandaríkjunum," segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala. „En Íslendingar sem búa erlendis eru nú að kaupa íbúð númer tvö á Íslandi."

Greinin fjallar jafnframt um að íslenskt húsnæði sé af háum gæðastaðli með trégólfum og björtum opnum rýmum, en síðan listar hún upp bestu hverfin og meðalverð á hverjum stað.

Segir í greininni meðal annars að Ægissíðan sem horfir út yfir Atlantshafið sé eftirsóttasta gatan í bænum, en íbúðir og hús þar séu venjulega seldar þannig að þær fari aldrei á opinn markaðar heldur bíði kaupendur í röðum.