Ríkisstjórn Íslands hefur horfið frá langvarandi andstöðu sinni við Evrópusambandið (ESB) í kjölfar hruns bankakerfisins og gæti gengið inn í sambandið fyrir árið 2011. Þetta kemur fram í umfjöllun blaðamannsins David Ibison á vefsíðu Financial Times. Ibison hefur fylgst með Íslandi um nokkurt skeið, og skrifaði meðal annars fyrstur manna um fund vogunarsjóðshákarla sem funduðu um árás á Ísland á 101 hótel í Reykjavík.

Á vefsíðu FT segir að þrýstingur frá almenningi hafi aukist mikið á undanförnum vikum, og að almennur stuðningur við inngöngu sé nú um 70% af heildarmannfjölda.

Hrun íslenska bankakerfisins hefur orsakað mikla veikingu krónunnar og mun leiða til harkalegrar kreppu, segir í frétt FT. Kreppan sem nú ríður yfir hefði verið umflýjanleg, að mati sumra, hefði Ísland verið í ESB og þar með aðgang að sterkum bakhjarli og lánveitanda til þrautavara.

Hins vegar segir í frétt FT að þótt að Ísland myndi vilja ganga í ESB, er ekki víst að aðild yrði veitt hið fyrsta. Er þar rifjað upp eitt helsta bitbein fylgismanna og andstæðinga ESB-aðildar, nefnilega fiskveiðistjórnunin. En með aðild að ESB er líklegt að Ísland þyrfti að veita öðrum aðildarþjóðum aðgang að fiskimiðum sínum.