Íslensk stjórnvöld munu fljótlega tilkynna um lánasamning við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (IMF) upp á sex milljarða Bandaríkjadali

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) mun koma Íslandi til bjargar með sex milljarða dala láni sem kynnt verður á næstunni.

Þessu er haldið fram á vef Financial Times (FT) í dag.

FT hefur eftir heimildarmönnum að um milljarður dala muni koma frá seðlabönkum á Norðurlöndunum en restin frá Japan. Þá er tekið fram í frétt FT að ekki sé ljóst hvort Rússland sé hluti af samningnum.

Þá er tekið fram að stjórnvöld hafi enn ekki óskað með formlegum hætti eftir aðstoð en á vef FT er reiknað með því að það verði gert í dag eða á morgun.

Samkvæmt frétt FT hafa viðræður staðið yfir í nokkra daga og hafa þær aðallega snúist um þær kröfur sem IMF muni gera til íslenskra stjórnvalda í kjölfar aðstoðarinnar.

Viðræðurnar eru sagðar snúast um bankageirann, ríkisfjármál og gjaldeyrisstefnu yfirvalda. Að sögn FT hefur sjóðurinn krafist þess að sjá plön um hvernig byggja eigi upp bankakerfið á ný og hvernig bankarnir munu verða í samanburði við aðra banka í alþjóðakerfinu.

Að sögn FT hefur IMF ekki krafist áætlana um það hvort og þá hvenær bankarnir verði seldir á ný og sérstaklega er vakin athygli á því að IMF hafi ekki farið fram á einkavæðingu Íbúðalánasjóðs.

Hvað ríkisfjármál varðar hefur IMF krafið yfirvöld um aðgerðaráætlun vegna mikillar skuldsetningar hins opinbera í kjölfar hruns bankanna. Þá herma heimildir blaðsins að skuldir ríkisins verði svipaðar ársþjóðarframleiðsu Íslands sem er um 1.400 milljarðar króna en skuldir ríkisins eru litlar sem engar nú.

Þá kemur fram í frétt FT að búist er við því að fljótandi gengi verði tekið upp á ný sem fyrst og búist er við því að gengið muni styrkjast í kjölfarið.