Um 2.500 manns hafa óskað eftir aðstoð frá þremur helstu hjálparsamtökunum á Íslandi á síðustu vikum. Þetta er 30% aukning frá fyrra ári og gerist á sama tíma og æ fleiri úr millistéttinni missa vinnuna vegna hruns íslenska bankakerfisins.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í frétt blaðamanns Financial Times sem skrifaði frá Íslandi í gær. Í fréttinni eru lýsingar á biðröðum eftir aðstoð og haft er eftir presti í Hallgrímskirkju að ástandið sé slæmt hjá skuldsettum fjölskyldum úr millistétt.

Ástandi efnahagsmála eftir hrun bankakerfisins er lýst og rætt er við fólk sem er að leita eftir aðstoð og íhugar jafnvel að flytja af landi brott eða vill að hætt sé við að halda jól. Einn telur að Íslendingar séu of latir og að mótmælin ættu að vera mun kröftugri.

Þrátt fyrir lýsingar á erfiðleikum er tekið fram í fréttinni að þó að vaxandi fjöldi þurfi matvælaaðstoð séu enn fáir í þeim sporum. Þá segir að jafnvel þeir sem hafi ekki lent illa í því séu að breyta um lífsstíl. Nú séu gefnar bækur og hlýir sokkar en í fyrra hafi það verið flatskjáir.