Samkomulag hefur náðst við kröfuhafa Kaupþings og Glitnis og drög að samkomulagi liggja fyrir við kröfuhafa Landsbankans og ætlunin er að ljúka því fyrir mánaðamót. Þetta kemur fram í frétt FT í kvöld sem fjallar um endurreisn íslensku bankanna.

Þar segir að kröfuhafar íslensku bankanna hafi tekið virkan þátt í viðræðunum í aðdraganda samkomulags sem náðst hafi um nýju bankana og gert sé ráð fyrir að þeir veiti samþykki sitt. Fram kemur að tilkynnt verði á morgun um 270 milljarða króna endurfjármögnun nýju bankanna og að erlendir kröfuhafar eignist ráðandi hlut.

"Það er mikilvægt að hafa náð samkomulagi við kröfuhafa frekar en lenda í málaferlum," er haft eftir íslenskum embættismanni.

Í frétt FT segir að ríkið muni gefa út skuldabréf upp á 270 milljarða króna í næsta mánuði vegna nýju bankanna þriggja. Kröfuhafar föllnu bankanna fái hlutabréf í tveimur nýju bankanna til að bæta upp fyrir góðar eignir sem hafi verið bjargað í hruninu sl. október. Með framlagi ríkisins verði eiginfjárhlutfall nýju bankanna um 12%, sem sé í samræmi við alþjóðleg viðmið.

Í fréttinni segir að formlegt samkomulag hafi ekki náðst vegna eignanna sem teknar hafi verið úr gamla Landsbankanum. Þar sé erfiðast að ná niðurstöðu, m.a. vegna mikilla skuldbindinga við bresku og hollensku ríkisstjórnina. Haft er eftir þeim sem þekki til samningaviðræðnanna að drög að samkomulagi liggi fyrir og frá því verði gengið fyrir júlílok.

Frétt FT.